sagan okkar

Fjölskylda í fyrirrúmi

Yfir 40 ára reynsla í veitingarekstri

Hjá Hlölla

Hlöðver Sigurðsson og Kolfinna Guðmundsdóttir kynnast árið 1974, felldu hugi saman og fóru mjög fljótt saman í rekstur. Sú ákvörðun var alls ekki ný af nálinni fyrir þeim þar sem bæði koma frá fjölskyldum í sterkum rekstri.

Afi Kolfinnu, Kristján Guðmundsson, stofnaði kjöt- og nýlenduvöru verslun á Vesturgötu 35 árið 1925, sem svo árið 1939 fékk nafnið Krónan. Sonur hans Guðmundur Hagalín kom síðar inn í reksturinn og saman byggðu þeir hús á horni Mávahlíðar og Lönguhlíðar. Þeir feðgar grófu grunninn með handafli og byggðu svo húsið sem verslunin stóð. Versluninni var breytt í sjoppu árið 1970 og var starfræk þar til ársins 1978.

Bifreiðastöð Steindórs Hafnarstræti
Mynd frá Þjóðminjasafni Íslands

Afi Hlölla var Steindór Helgi Einarsson, frumkvöðull mikill sem byrjaði snemma að hugsa stórt en hann var ungur að árum þegar hann eignaðist hjól sem hann svo leigði út og safnaði sér fyrir vélbát. Bátinn notaði hann til flytja fólk og varning á milli skips og lands í Reykjavíkurhöfn á þeim tíma sem engin voru hafnarmannvirki sem stærri skip gátu lagst að og lágu því skipin jafnan á ytri höfninni. Starfsemin þróaðist með tímanum og ákvað hann seinna meir að söðla um og snúa sér að fólksflutningum með bifreiðum og eignaðist hann fyrsta bílinn sinn árið 1915. Hann stofnaði Bifreiðastöðina árið 1918 og var afgreiðslan fyrst um sinn í lítilli kompu á aðalinngangi Hótel Íslands. Haustið 1919 flutti hann starfsemina á Steindórsplan og árið 1937 reisti hann þar tvílyft bifreiðaafgreiðslu- og skrifstofuhús. Steindór hafði snemma mikil umsvif en 1918 voru bifreiðar hans orðnar 8 og tveimur árum síðar 11 talsins, allar nýjar eða nýlegar. Steindór féll frá 1966 en synir hans héldu rekstrinum áfram allt til ársins 1982 og bifreiðastöðin var rekin á planinu allt til ársins 1986.

Blóm og kerti EddufelliHlölli og Kolla hafa prófað ýmislegt og alltaf unnið mikið. Fyrst um sinn voru þau í sjoppu rekstri og opnuðu sjoppu á Kaplaskjólsvegi og síðar Sólvallagötu. Næsta verkefni var fiskvinnslan Humall sem þau opnuðu í samstarfi við vin sinn. Árið 1980 fóru þau í heimsókn til Bandaríkjanna þar sem þau sáu handskorin kerti og heilluðust svo mikið að þau ákváðu að sækja námskeið hjá bandarískum hjónum og unnu svo í framhaldi hjá þeim. Þegar þau snéru aftur heim opnuðu þau verslunina Blóm og kerti. Fyrsta verslunin var í Eddufelli og síðar opnuðu þau aðra verslun á Steindórsplaninu. Handskornu kertin voru mjög vinsæl og eflaust einhverjir sem muna eftir þeim.

Hlölli sjálfur

Hlölli og Kolla hafa alltaf verið miklir sælkerar og hafa mjög gaman að því að elda og útbúa mat. Kolla var með veisluþjónustu í fjölda ára, bæði með móðir sinni og svo ein, og það kom því ekki mörgum á óvart þegar upp kom sú hugmynd að opna matsölustað. Árið 1986 opnuðu þau fyrsta Hlöllabáta staðinn á Steindórsplaninu en innblásturinn fengu þau frá þeim tíma sem þau voru búsett í Bandaríkjunum. Heitt langlokubrauð með steiktu áleggi (e. subs) sem þau nefndu ,,báta“ og hefur það heiti fest sig í sessi fyrir þess konar mat í dag.

Hlölli og Kolla í AusturstrætiÁ árunum 1993-1994 voru Steindórsplan og Hallærisplan sunnan Austurstrætis sameinuð í eitt torg, Ingólfstorg. Þá var húsnæðið sem Hlöllabátar voru í rifið og þau byggðu nýtt hús sem hýsir Hlöllabáta enn þann dag í dag í miðbænum. Staðirnir hafa síðan þá verið all nokkrir en Hlölli og Kolla gerðu út báta á Bíldshöfðanum til ársins 2012 þegar þau ákváðu að breyta til og seldu reksturinn.

Litla kaffistofan

Litla Kaffistofan er staðsett á Suðurlandsvegi um það bil 20 km frá Reykjavík. Staðsetningin er í raun engin tilviljun en á svæðinu hér fyrir ofan Sandskeiði og
neðan við Kolviðarhól hafa alltaf verið marktæk skil á því hvort heiðin sé fær eða ekki, en Hellisheiðin hefur löngum verið óviss og krefjandi leið. Í gegnum tíðina og þá sérstaklega að vetrarlagi hefur oft komið fyrir að Litla kaffistofan hefur gegnt hlutverki björgunarskýlis og hýst marga veðurteppta ferðalanga.

Kleinukot

Hér hófst fyrst rekstur 4. júní 1960 þegar Ólína V. Sigvaldadóttir stofnaði Litlu Kaffistofuna, sem hún rak til lok ársins 1982. Ólína var matráðskona við vegalagningu á Hellisheiði á árunum 1957-1959. Þegar því verki lauk ákvað hún að hefja veitingarekstur í litlu húsi í Svínahrauni sem síðar fékk heitið Litla kaffistofan. Ólína laðaði að sér viðskiptavini og var sérstaklega þekkt fyrir kleinubakstur sinn og þar kom að ýmsir nefndu staðinn Kleinukot.

Í september 1983 tekur Kristbjörg Kristinsdóttir við Litlu kaffistofunni og starfrækir hana fram til ársins 1990 ásamt syni sínum. Staðurinn var rekinn í sömu mynd og Ólína hafið gert áður með kleinum,pönnukökum og kaffi ásamt ýmsu bakkelsi.

Um mitt ár 1990 taka hjónin Helga Guðbrandsdóttir og Ásbjörn Magnússon við keflinu. Þau gera ýmsar endurbætur á húsnæðinu, bæta við nýbyggingunni austan megin (ytri veitingasalur í dag) sem upphaflega var teiknað og notað sem íbúðarhúsnæði – viðvera þeirra var þá orðin allan sólarhringinn. Þau létu bora fyrir köldu vatni, en þar til hafði öllu vatni verið ekið upp eftir og geymt á járntanki. Einnig koma þau upp símasjálfsala.

Árið 1993 tekur við rekstrinum, Stefán Þ. Guðmundsson, ásamt eiginkonu sinni, Jónu Gunnarsdóttir. Stefán vann áður sem innheimtustjóri hjá Olís frá 1988 til 1993. Stefán var og er mikill knattspyrnuáhugamaður og bar staðurinn þess merki en allir veggir voru þaktir íþrótta myndum, fánum og öðru sem tengist knattspyrnu. Stefán hélt í hefð fyrrum rekstraraðila með að bjóða upp á kleinur, pönnukökur og fleira bakkelsi en bætti við pylsum, súpum og íslensku kjötsúpunni sem varð fljótt einn vinsælasti rétturinn hjá honum.

Árið 2016 ákveður Stefán að draga sig til hlés. Í framhaldi auglýsir Olís eftir nýjum rekstraraðilum og fá hátt í 100 umsóknir. Í apríl 2016 taka við systurnar, Ásdís og Hallveig Höskuldsdætur, en áætlanir þeirra ganga hins vegar ekki eftir og þær ákveða að koma keflinu áfram eftir einungis nokkra mánuði í rekstri.

Þann 1. nóvember 2016 taka hjónin Katrín Hjálmarsdóttir og Svanur Gunnarsson við rekstrinum. Þótt hingað til hafi fengist heit kjötsúpa og ýmist heitur matur, þá innleiddu þau meiri grillmenningu í staðinn með því að bæta á matseðilinn skyndibita á borð við hamborgara og franskar. Einnig buðu þau upp á heitan mat í hádeginu. Þau reka kaffistofuna fram að miðju sumri 2021.

Frá því Litla kaffistofan var stofnuð hefur hér verið rekin bensínstöð. Bensínskúrinn, sem alla jafna var nefndur ,,Hænsnakofinn“ var lengi vel vinstra megin við húsnæðið og hýsti allt tengt bensínsölunni. Sá skúr hefur að öllum líkindum verið látinn fara þegar viðbætur voru gerðar við húsnæðið kringum 1990. Rekstaraðilar sáu um bensínsöluna sem endursöluaðilar allt til ársins 2016 þegar Olís breytti bensíndælunum í ÓB sjálfafsgreiðslustöðvar.